Hafðu samband

Nafn
Netfang
Skilaboð
 

Nokkrir styrkir standa námsmönnum til boða sem hyggja á nám í Bandaríkjunum.  Mest framboð styrkja er til masters- og eða doktorsnáms en töluvert færri styrkir eru í boði fyrir grunnnám. Á farabara.is, sem er upplýsingasíða um nám erlendis, er hægt að fletta upp styrkjum sem í boði eru fyrir íslenska námsmenn til að stunda háskólanám í Bandaríkjunum.. Hér er þó ekki um tæmandi lista að ræða enda sumir íslenskir námsstyrkir eingöngu auglýstir í fjölmiðlum landins. 

Bandarískir háskólar veita í mörgum tilfellum styrki til erlendra nemenda og þá oftast í formi afslátta eða niðurfellingar á skólagjöldum. Við val á háskóla er afar mikilvægt að kynna sér hvernig erlendir námsmenn eru styrktir en það getur verið mjög mismunandi milli skóla m.t.t. styrkupphæðar, fjölda styrkja, ofl. Samkeppni um beina styrki frá háskólunum sjálfum er oft mjög hörð og skiptir námsárangur þar miklu máli, bæði úr fyrra námi og inntökuprófum.

Fyrir þá sem hyggja á grunnnám í Bandaríkjunum viljum við benda á að íþróttastyrkir geta verið raunhæfur kostur og verður frekar fjallað um þá undir flipanum íþróttastyrkir hérna t.v. á síðunni.

Skólagjöld eru mjög mismunandi á milli skóla í Bandaríkjunum og geta þau  verið frá nokkur þúsund USD upp í fleiri tugi þúsunda dollara á ári. Ódýrustu skólarnir eru þeir sem kallast Community Colleges. Það eru tveggja ára háskólar sem bjóða upp á hagkvæman kost til að ljúka fyrstu tveimur árum af fjögurra ára háskólanámi. Eftir tvö árin geta nemendur flutt sig yfir í hefðbundinn fjögurra ára háskóla og lokið þaðan grunnháskólagráðu, BA eða BS. Til að þetta sé hægt þarf að vera á milli skólanna þar til gerður samningur sem kallast „articulation agreement“ en hann tryggir flutning á milli skóla, standist nemandi ákveðnar lágmarkskröfur. Flestir góðir 4 ára háskólar eru með samninga við slíka tveggja ára háskóla.