Hafðu samband

Nafn
Netfang
Skilaboð
 
 

Fyrirlestur um Kolefnishringrásina 20. febrúar kl. 12.15

 
 
 
 
 

Doktor Sigurður Reynir Gíslason, jarðfræðingur

Doktor Sigurður Reynir Gíslason, jarðfræðingur,  mun halda fyrirlestur um Kolefnishringrásina  20. febrúar  kl. 12.15 í Fulbright stofnuninni, Laugavegi  59, 3. hæð.

Bókin hans um Kolefnishringrásina kom út í desember 2012 á vegum Hins íslenska

bókmenntafélags.  Eftir meira en 100.000 ára dvöl mannsins á jörðinni hefur hann hraðað hluta kolefnis hringrásarinnar mikið, með landnotkun og bruna lífrænna orkugjafa, hröðunin hefur verið mest síðastliðin 50 ár. Styrkur koltvíoxíðs í andrúmslofti er orðinn meiri en hann hefur verið undanfarin 800.000 ár. Loftslag hlýnar vegna gróðurhúsaáhrifa sem koltvíoxíð veldur, úthöfin sýrast og sjávaryfirborð hækkar. Spurningin er einungis hvort hækkun sjávarborðs á þessari öld verður talin í sentimetrum eða metrum.

Jarðarbúar eru nú sjö þúsund milljónir. Um helmingur þeirra býr í borgum og margar borganna eru við sjávarsíðuna. Mun fólk þurfa að færa sig um set?

Sigurður Reynir Gíslason, er vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans (http://www.jardvis.hi.is/). Hann er fæddur í Reykjavík 1957. Útskrifaðist sem jarðfræðingur frá Háskóla Íslands í júní 1980, og lauk doktorsprófi í jarðefnafræði frá Johns Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum 1985. Sigurður og framhaldsnemar hans hafa á undanförnum árum rannsakað efnaskipti vatns og bergs, vatns og lofts og vatns og lífvera í náttúrunni og á tilraunastofu með sérstaka áherslu á hringrás kolefnis á jörðinni. Sigurður situr í ritstjórn Chemical Geology, sem er vísindatímarit Evrópusambands jarðefnafræðinga, hann hefur setið í stjórn sambandsins og hann er forseti Geochemistry of The Earth Surface (GES), sem er ein af sjö vinnunefndum The International Association for GeoChemistry. Hann er formaður vísindaráðs CarbFix, sem er alþjóðlegt vísindaverkefni um bindingu kolefnis í bergi (http://www.carbfix.com).

 


// Til baka