Hafðu samband

Nafn
Netfang
Skilaboð
 

Grein eftir Belindu Theriault, framkvæmdastjóra Fulbright á Íslandi um Norðurslóðaáætlun Fulbright (Fulbright Arctic Initiative) birtist í Morgunblaðinu í dag, 24. október. Texti greinarinnar birtist að neðan, en einnig fylgir skjáskot af henni á vinstri hönd.

Norðurslóðir í brennidepli

Fulbright-áætlunin er flaggskip Bandaríkjastjórnar á sviði alþjóðlegs mennta- og vísindasamstarfs og nýtur virðingar um allan heim. Því var mikið fagnaðarefni þegar Norðurslóðaáætlun Fulbright (Fulbright Arctic Initiative) var hleypt af stokkunum á síðasta ári samhliða formennsku Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu. FAI hefur mikilvægu hlutverki að gegna í fræðasamfélaginu og er kjörinn vettvangur til að auka fræðasamstarf Íslands og Bandaríkjanna í málefnum norðurslóða.

    Samstarf ríkja Norðurskautsráðsins fer vaxandi. Unnið er á mörgun vígstöðvum, en segja má að samstarf á sviði vísinda og rannsókna sé grundvöllur alls samstarfs á norðurskautssvæðinu. FAI býður upp á þverfaglegt samstarf þar sem mál eru skoðuð með heildstæðum hætti. Stuðlað er að hagnýtum rannsóknum sem nýtast við að leysa sameiginlegar áskoranir.

   Fyrsta verkefnalota FAI leiðir saman 17 fræðimenn frá öllum ríkjunum átta sem eiga aðild að Norðurskautsráðinu.     Verkefnið hefur staðið í 18 mánuði frá vori 2015. Í þessari fyrstu lotu hefur verið lögð áhersla á áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðir, en vinnan hefur farið fram í þremur vinnuhópum sem hafa hver sitt áherslusvið; vatn, orka, og heilbrigðismál og innviðir. Þátttakendur hafa unnið bæði að eigin rannsókn og sem hluti af rannsóknarhópnum. Hópurinn hittist á fundum í Kanada og Finnlandi á fyrri stigum samstarfsins, auk þess sem hver þátttakandi hefur stundað rannsóknarvinnu utan heimalandsins í öðru norðurskautsríki. Verkefnalotunni lýkur nú í lok október með Norðurslóðaviku Fulbright í Washington D.C.

   Fulltrúi Íslands í núverandi verkefnalotu er Bjarni Már Magnússon dósent í lögum við HR, sem fékk m.a. tækifæri til að sinna rannsóknarstarfi við Duke-háskóla í Bandaríkjunum. Þá kom verkfræðingurinn Gwen Holdmann frá Alaska til rannsóknardvalar á Íslandi til að kynna sér orkumál, en margir FAI-fræðimenn hafa jafnframt sótt Hringborð norðurslóða í Reykjavík.

   Niðurstöður fræðimannanna verða kynntar í Washington á Norðurslóðaviku Fulbright. Dagskráin er glæsileg og fer fram á nokkrum af helstu miðstöðvum fræðimennsku í höfuðborginni. Þriðjudaginn 25. október verður opið hús í Smithsonian-náttúrusafninu þar sem fræðimenn munu ræða við gesti og gangandi. Miðvikudaginn 26. október verður opinn fundur í Carnegie Endowment for Peace þar sem rætt verður um áskoranir og tækifæri á norðurslóðum. Fimmtudaginn 27. október verður heilsdags málþing í National Academy of Sciences. Þetta er ómetanlegt tækifæri fyrir þá fræðimenn sem þátt taka í FAI til að koma rannsóknarvinnu sinni á framfæri. Væntanlega er einsdæmi að íslenskur fræðimaður taki þátt í fundum í þessum þremur musterum þekkingar í einni og sömu vikunni.

   Það verður spennandi að heyra hvað hópurinn hefur fram að færa eftir 18 mánaða samstarf. Hægt verður að fylgjast með málþinginu á netinu, en allar upplýsingar um Fulbright Arctic Week má finna á http://www.cies.org/fulbright-arctic-week.

   Ef áætlanir ganga eftir mun næsta lota FAI hefjast haustið 2017, að undangengnu umsóknarferli í öllum norðurskautsríkjunum. Það er mikilvægt að Ísland verði þátttakandi í þessu verkefni áfram. Fulbright-stofnunin á nú í viðræðum við íslensk stjórnvöld um aðkomu Íslands. Þau ríki sem leggja fram fjármagn í næstu lotu taka þátt í því að móta áherslur lotunnar og leggja línurnar fyrir starfið fram undan. Norðurslóðaáætlun Fulbright veitir fræðasamfélaginu á Íslandi spennandi tækifæri, eflir samskipti Íslands og Bandaríkjanna og styrkir stöðu Íslands sem vettvang norðurskautsrannsókna. 

 


// Til baka