Hafðu samband

Nafn
Netfang
Skilaboð
 
 

Samstarf við Utanríkisráðuneytið á sviði norðurslóðafræða

 
 
 
 
 

Framkvæmdastjóri Fulbright stofnunarinnar og Hermann Örn Ingólfsson, sviðsstjóri, og Atli Már Sigurðsson, sérfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu

Utanríkisráðuneytið og Fulbright stofnunin hafa gert með sér samstarfssamning um fræðimannastyrki á sviði norðurslóðamála. Með samningnum styrkir utanríkisráðuneytið komu bandarískra fræðimanna til kennslu og rannsókna á sviði norðurslóðafræða við menntastofnanir á Íslandi næstu þrjú ár.

Málefni norðurslóða eru ein meginstoðin í utanríkisstefnu Íslands. Meðal forgangsatriða í stefnu stjórnvalda er að stuðla að aukinni þekkingu á málefnum norðurslóða með rannsóknum og störfum fræðimanna.

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styrkja tengslin vestur um haf og það er ánægjulegt að með þessu samkomulagi tökum við lítið, en mikilvægt, skref að því að efla vísinda- og fræðasamstarf í málum sem varða hagsmuni beggja ríkja,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

Utanríkisráðherra segir það gagnkvæman vilja ríkjanna að styrkja tengslin á þessu sviði meðal annars með því að miðla enn frekar þekkingu og reynslu í sameiginlegum hagsmunamálum. „Samstarfssamningurinn mun efla menntastofnanir á Íslandi og styrkja þær sem áhugaverðan valkost fyrir nemendur og fræðimenn á alþjóðavettvangi. Við erum mjög ánægð að geta unnið með Fulbright stofnuninni að þessum málum í ljósi þess mikilvæga starfs sem stofnunin hefur unnið áratugum saman“ segir Gunnar Bragi.

Gert er ráð fyrir að árlega komi bandarískur fræðimaður til starfa við íslenskan háskóla þar sem hann muni stunda fræðistörf og kennslu auk þess að sinna almennu kynningarstarfi á norðurslóðafræðum eins og kostur er.


// Til baka