Hafðu samband

Nafn
Netfang
Skilaboð
 

Saga og hugmyndafræði Fulbright

J. William Fulbright, f.1905 d.1995, var einn áhrifamesti bandaríski stjórnmálamaðurinn á 20. öldinni. Hann átti hugmyndina að því að gerðir yrðu tvíhliða samningar milli Bandaríkjanna og annarra þjóða um að efla samskipti þjóðanna á sviði menntamála. Hugmyndina fékk hann þegar bandaríska þjóðin þurfti, í lok síðari heimsstyrjaldar, að ákveða hvað gera skyldi við vörubirgðir í eigu bandaríska hersins, sem safnast höfðu upp í ýmsum löndum.  J. William Fulbright var þá öldungardeildarþingmaður og lagði hann til í þinginu, að í stað þess að flytja vörubirgðirnar heim til Bandaríkjanna, skyldu þær seldar í viðkomandi landi og afraksturinn notaður til að fjármagna samskipti Bandaríkjanna og viðkomandi lands á sviði menntamála.  Tillagan var samþykkt, og lög þessa efnis voru undirrituð af Harry Truman forseta Bandaríkjanna 1. ágúst 1946. Rúmlega hálfri öld síðar eru Fulbright stofnanir starfandi í 51 landi. Að auki hafa aðrar 89 þjóðir undirritað Fulbright samninginn. 

Í hugmyndinni felst hugsjón og mikil trú á mátt menntunar til að stuðla að þroska einstaklingsins til að lifa góðu lífi í siðmenntuðu þjóðfélagi. J. William Fulbright taldi að samskipti þjóðanna á þessu sviði gegndu lykilhlutverki í að efla skilning þeirra á ólíkum menningarvenjum og sagði hann menntun vera eitt öflugasta vopn mannkynsins til að stuðla að bættum lífskjörum og friði í heiminum. Hugmyndafræði J. William Fulbright liggur til grundvallar allri Fulbright starfseminni.

Í Bandaríkjunum er yfirumsjón með Fulbright starfseminni í höndum Utanríkisráðuneytisins, U.S. Department of State,  nánar tiltekið hjá Bureau of Educational and Cultural Affairs. Það er Bandaríkjaforseti sem skipar í 12 manna yfirstjórn Fulbright, the J. William Fulbright Foreign Scholarship Board (FSB).  

Það eru síðan tvær sjálfstæðar stofnanir sem sjá um daglega framkvæmd starfseminnar í umboði FSB og Department of State, þ.e. Council for International Exchange of Scholars, CIES, sem sér um allt er lýtur að skiptum fræðimanna, og Institute of International Exchange, IIE, sem sér um nemendaskiptin. Þessar stofnanir sjá um að taka við umsóknum frá öllum bandarískum styrkumsækjendum og frá sumum erlendum umsækjendum, og aðstoða erlenda styrkþega á ýmsan máta eftir að til Bandaríkjanna er komið.